top of page

LIST, LÍF, SVIPIR OG LÍNUR

​Úlfhildur Dagsdóttir

Litir og landslag


Litir eru hið alltumvefjandi einkenni listaverka Pálínu Guðmundsdóttur. Hún menntaði sig samtímis í málvísindum og myndlist og hefur allt frá upphafi helgað höfundarverk sitt tjáningarmætti lita. Litirnir lýsa málverkin upp og skapa þeim krefjandi nærveru sem jafnframt býður upp á leik og leit að línum og formum, hvort sem um er að ræða andlitsdrætti eða markalínur hins fjölskrúðuga litalandslags. 

Appelsínugulir og gulir litir eru áberandi, svo og bleikir, bláir og blágrænir, en einnig bregður fyrir rauðu, grænu og fjólubláu. Litirnir eru iðulega sterkir og djúpir og listakonan stefnir saman ólíkum litum sem flæða um verkin, afmarka fleti og rými og skapa sérstæða áferð.  


Í námi sínu í Hollandi byrjaði Pálína að vinna abstrakt málverk með áherslu á liti og áferð, og þótt  hún hafi síðar fært sig yfir í fígúratífari verk í andlitsmyndunum, þá er litaáferðin áfram í aðalhlutverki. Sú vinna leiddi hana meðal annars  til rannsóknar á efnum, þá sérstaklega lakki, sem hún vann með efnafræðingi. Eins og vænta má glímdi listakonan á námsárunum við formið og efnið, það að finna sér farveg. Meðal annars gerði hún málverk sem ætluð voru til að standa á gólfi og hallast upp að vegg.


2013 var Pálína bæjarlistamaður Akureyrar. Hún hélt sýningu undir yfirskriftinni „Rými“, í gömlu kartöflugeymslu bæjarins sem hafði verið endurbyggð sem arkitektastofa. Málverkin voru þá tuttugu ára gömul en höfðu aldrei verið sýnd. Þetta voru abstrakt málverk sem fjölluðu um rými í víðri merkingu og í þeim mátti sjá móta fyrir óljósum tómarúmum. Í tungumálinu er talað um að skapa sér rými, einnig um almenningsrými, einkarými, andrými, tómarúm og svo framvegis, og mörg þessara orða gefa til kynna þörf fyrir að skilgreina rýmið utan og innra með einstaklingnum. Hlutir eru flokkaðir og þeim skipt niður í hólf eða einhverskonar huglæg rými. Grunnþáttur þess að gera mynd er að skapa rými á persónulegan hátt með litum og myndbyggingu. Hver litur hefur sína eigin rýmisskynjun, þeir köldu víkja og þeir heitu koma fram. 


Jörð og vatn

Sum abstraktverka Pálínu kalla fram tilfinningu fyrir landslagi, sjóndeildarhring, ólgu á himni og í vatni. Smátt og smátt færðust verkin meira í átt að landslagi, en landslagsmyndir hennar eru þó ávallt á mörkum þess að vera abstrakt og fígúratívar. Margar fjallamyndirnar byggja á speglunum þar sem liturinn ræður ríkjum í samþáttun útlína og flata.

Landslagsmyndirnar minna á auðnina og hálendið í kringum æskustöðvar Pálínu, en hún ólst upp í Bárðardal sem er sá dalur landsins sem nær lengst inn að hálendinu. Bærinn sem hún er ættuð frá er innsti bærinn í dalnum, þeim megin Skjálfandafljótsins. Fjallgöngur, vítt útsýni og frásagnir ferðamanna vöktu forvitni og löngun til að vinna með hálendið. 

Skjálfandafljótið rennur í gegnum Bárðardal með sína fögru fossa og ummerki vatnsins má víða sjá í verkum Pálínu, ekki síst í ólgandi litahringiðum margra abstraktverkanna. Á Akureyri er vatnið líka nærtækt og þegar listakonan flyst til Gautaborgar tekur höfnin þar og skerjagarðurinn við flæðinu. Það er ekki erfitt að skynja hrynjanda, öldugang og farvegi vatnsins í verkum Pálínu, hvort sem er í abstrakt verkum, eða portrettunum. Vatnið í lífi hennar gat verið spegilslétt og fagurt, úfið eða stórhættulegt og hið sama má segja um andlit fólksins sem hún málar. Í hafinu speglast svo himinninn í öllum sínum tilbrigðum og teiknar skugga og nýja liti í landslagið.

Í þessum flæðandi landslagsmyndum, kannski helst vatnslitamyndunum, má líka skynja tilfinningu fyrir erlendum skrúðgörðum en Pálína bjó 18 ár erlendis og var í náinni snertingu við slíka garða. Ekki má heldur gleyma Lystigarðinum á Akureyri. Áhugi á ræktun og gróðri, landslagi á hreyfingu og skriði er annað atriði sem átti eftir að skila sér á margvíslegan hátt í verkefnum listakonunnar.


Sveit og borg

Stökkið frá einangruninni í Bárðardal til þéttbýlis Akureyrar var nokkurt fyrir barnssálina, og svo tók annað stærra við þegar unglingurinn flutti frá Akureyri til Gautaborgar. Stórborgarlífið og mannfjöldinn heillaði og síðan þá eiga stórborgir stærri sess í huga listakonunnar en landslag auðnar og dreifbýlis. Þetta tvennt flæðir svo saman í andlitsmyndunum sem iðulega raðast saman í þétta samfellu og skapa tilfinningu fyrir þeim fjölda andlita sem einkennir stórborgarlífið. Borgarlandslagið er á sinn hátt einskonar óbyggðir og ekki má gleyma því að í borginni eru líka órólegar landslagslínur í formi leiðakerfa eða samgönguæða, ofanjarðar og  neðan. 


Þessi tilfinning borgar og auðnar framkallast á áhrifamikinn hátt í málverkum sem Pálína vann í Berlín og kallast á við eldri verkin. Þar hafði hún vinnustofu sem bauð upp á tækifæri til að vinna stór verk. Þær myndir má skoða í ljósi (borgar)landslagsmynda sem teknar eru úr mikilli fjarlægð, þar sem öll smáatriði mást út og bara aðalatriðin verða sýnileg. Þessi verk voru á sýningunni „Ferðalag“ árið 2014. Þar var fyrirferðamest 5 m langt akrýlmálverk, 160 cm hátt. Verkið er abstrakt þar sem litirnir eru allsráðandi og yfir þá eru svo flæðandi línur og fletir. Á sýningunni voru einnig vatnslitamyndir af óljósu landslagi og mörg smá olíumálverk af andlitum. Ári seinna sýndi Pálína annað jafnstórt málverk frá Berlín í sal safnaðarheimilisins hjá Akureyrarkirkju auk abstraktmálverka frá 1989. 


Berlínarverkin voru einnig sýnd á Hjalteyri 2016, á samsýningu sem Pálína skipulagði undir yfirskriftinni „Rífa kjaft“. Tildrög sýningarinnar voru áleitnar spurningar sem byggðu á verki þýsku listakonunnar Karla Sachse, frá árinu 2005 og úrvinnslu hennar á hörmungum seinni heimstyrjaldarinnar í Þýskalandi. Sýning Saschse var í sögulegu húsi sem var byggt sem sjúkrahús en yfirtekið af austurþýsku leyniþjónustunni, Stasi, eftir stríðslok. Fyrrum meðlimir Stasi beittu sér af þunga við að láta fjarlægja verkin, en Sachse stóð fast við sitt og verkin eru þarna ennþá. Segja má að Sachse hafi þarna rifið kjaft við fyrrum Stasimeðlimi og haft betur. Þessi átök voru Pálínu innblástur að fyrstu „kvennasýningunni“ í Verksmiðjunni. Þar leitaðist hún við að benda á að hlutverk listar getur verið margskonar, hún getur verið til skrauts, en einnig eflt andann, spurt gagnrýninna spurninga og koma af stað vitundarvakningu vekja vitundarvakningu. Slík list er oft þyrnir í augum valdhafa og Pálína vildi draga fram mikilvægi þess að listamaðurinn megi vera staðfastur og sjálfum sér trúr sama þó að á móti blási. List getur eins og táknmál höfðað beint til vitsmuna og tilfinninga án fullrar meðvitundar áhorfandans. Pólitíkin þarf ekki að vera á yfirborðinu heldur getur hún falist í því einfalda athæfi að stunda sína list, utan viðurkenndra landamæra eða markalína.


Vinna listakonunnar með flæði lína, leiðakerfa og andlita í verkunum frá Berlín birtir  áherslu hennar á umhverfi og félagslegar aðstæður. Litir og form náttúrunnar eru ávallt nálæg og hún tjáir þá tilfinningu sem þessi reynsla veitir henni og yfirfærir hana á stórborgarlífið þar sem takast á fjöldi og einmanaleiki. Þannig er viðfangsefni verkanna ekki einungis (borgar)landslag og náttúra heldur kanna verkin flóru mannlífs, samhliða afstöðu og tilfinningum einstaklingsins til umhverfisins – svo og stöðu manneskjunnar í samfélagi og umhverfi.  Þessi afstaða felur í sér ádeilu á það sem miður fer í samfélaginu og í verkum sínum fléttar Pálína iðulega saman persónulegulegum þáttum og upplifunum á umhverfi á áhrifaríkan hátt.



Andlit - bakland


Þekkir þú þetta fólk? Andlitin eru litrík og þótt þau og beri hvert og eitt sinn svip þá líkjast þau um leið hvert öðru – og okkur sjálfum. Þetta eru manneskjur úti á götu, inni á heimilum, í farartækjum, fjölskyldumyndum; svipir. 


Strax á unga aldri hafði Pálína áhuga á því að taka ljósmyndir af fólki, aðallega andlitsmyndir. Margbreytileiki andlitanna heilluðu og urðu henni innblástur að málverkum. Frá árinu 1993 hefur listakonan unnið markvisst með andlitsmyndir, með áherslu á svipbrigði og tjáningu tilfinninga gegnum litaval og pensilskrift. Málverkin eru unnin út frá ljósmyndum af fólki sem (oft) tengist henni en lokaniðurstaðan er þó ekki endilega lík fyrirmyndinni heldur miðlar tilfinningu hverrar ljósmyndar í samhengi fjölda andlitsmynda. Málverkin standa því  á mörkum þess að vera portrett, sem samkvæmt skilgreiningu eru myndir af tilteknum, nefndum, einstaklingum. Sum þeirra eru af ákveðnum einstaklingum, en engin nöfn fylgja myndunum (utan tilvísana í ættfræði). Fyrir Pálínu skiptir máli að þekkja fyrirmyndina persónulega, eða að finna tengingu við hana, þessi tilfinningalegu tengsl eru grunnurinn að vinnuferlinu. Svo er það áhorfandans að túlka útkomuna, andlitið, á persónulegan hátt og skynja það sem er fyrir innan grímuna. Á sama hátt skipta sýningarstaðir máli fyrir listakonuna, stundum persónulega, stundum sem hluti af hugmyndavinnu verka. 


Liturinn er grundvallaratriði í list Pálínu og hún beitir litum til að ná fram þeirri tilfinningalegu tjáningu sem er annað grunnstef listar hennar. Expressíónísk einkenni andlitsmynda Pálínu koma hvað skýrast fram í litanotkuninni. Litir búa yfir tilfinningalegri tjáningu sem er allt önnur en finna má í tungumáli, orðum og setningum. Markviss beiting lita getur fangað þá margbreytilegu fegurð sem býr í augnablikinu, efninu og sjálfum litunum. Andlitsmyndirnar eru litríkar líkt og fyrirmyndirnar, manneskjur með fjölbreytta reynslu, stöðu og uppeldi, þetta er fólk sem er allsstaðar í umhverfinu, stundum nærri, stundum fjær.


Svipirnir á myndum Pálínu eru oft óræðir, en geta einnig verið skarpir – sum andlitin eru innhverf meðan önnur eru krefjandi og kalla á augnsamband. Listakonan málar stundum með fínlegum pensilstrokum yfir málaðan grunn, litur andlitanna fellur þá að hluta til saman við umhverfið og bakgrunninn og oft birtast andlitin mörg saman á einni mynd, ýmist hlið við hlið eða í lóðréttri röð. Aðrar myndir eru málaðar sterkum litum, bleikum, blágrænum. Sumar eru vatnslitamyndir, aðrar  málaðar með olíu eða akrýllitum, ýmist á dúk eða pappír. Form andlitanna og svipbrigði mótast af litum og skuggum, en vatnslitamyndirnar virka mýkri meðan olíumálverkin draga fram margbreytilega tjáningu, ekki síst með sjálfri áferðinni. Akrýlmyndirnar eru oft dökkar og dulúðugar, og reyndar má segja að ákveðin dulúð eða mystík svífi yfir vötnum í andlitsmyndunum yfirleitt, andlitin eru allt í senn kyrrlát, íhugul og ágeng. Myndirnar eru misstórar, einstaklingsmyndirnar eru yfirleitt litlar, en þær sem sýna mörg andlit í röðum eru mun stærri.


Ættir og ævi

Sem kennari í fullorðinsfræðslu fyrir jaðarhópa vann Pálína að verkefnum tengdu fjölskyldutrénu. Þau urðu kveikjan að vinnu Pálínu með eigin fjölskyldusögu og ættfræði í listinni. 2005 vann hún seríur af fjölskyldumyndum í olíu á striga sem hún sýndi á tveimur sýningum. Fyrri bar yfirskriftina „Fjölskylda“ en sú seinni „Svipir“. 

Á sýningunni „Taktur“ (2010) vann hún áfram með ættfræði og hugmyndina um lífstaktinn. Sú sýning tengdist annarri sýningu sem hún hélt að Skeiði í Svarfaðardal og nefndist „Húsmæður og heimasætur“. Á þeim bæ bjuggu Guðríður, amma Pálínu og foreldrar hennar og skoðar hún ættir þeirra. og veltir meðal annars fyrir sér hve lengi menn finni til skyldleika. Á sýningunum er bakland einstaklingsins myndgert og dregið fram hve margir standa að baki hverjum og einum sem getur svo skýrt hvaðan mismunandi eiginleikar og hæfileikar koma. 


Þegar Pálína var tveggja ára bjó hún einn vetur ásamt móður sinni í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti á Akureyri. Áratugum síðar, 2011, setti hún upp sýningu þar ásamt Örnu G. Valsdóttur og vann áfram með fjölskyldusöguna. Pálína sýndi bók með teikningum af formæðrum sínum í kvenlegg. Þær höfðu laufblöð yfir andlitinu, jafn mörg og liðurinn sem þær tengdust í ættfræðinni, sú í áttunda lið hafði því átta laufblöð og síðan fækkaði þeim eftir því sem nær Pálínu dró. Sama ár sýndi Pálína á samsýningunni „Innsýn“ fjögur stór andlitsmálverk sem báru yfirskriftina „Námsmenn í sumarvinnu“. Fyrirmyndirnar voru ljósmyndir af öfum og ömmum listakonunnar. Með myndunum leitaðist hún við að miðla tilfinningu fyrir lífi þeirra, striti og líkamlegu erfiði jafnt sem löngunum og draumum. Sýningin var í Verksmiðjunni á Hjalteyri og sem fyrr er staðsetningin mikilvæg fyrir upplifunina af verkunum.


Sama ár skapaði Pálína sjónræna framsetningu út frá ætt föður síns til áttunda liðar í innsetningunni „Rætur - Arfur“. Sýningin var tvískipt. Annars vegar var andlitsmyndum unnum í akrýl á svartan pappír raðað á veggi í gluggalausu myrku kjallararými. Þau minntu á grímur eða skugga forfeðra sem minna á sig og lifa áfram í okkur. Staðsetningin í dimmu og þröngu rýminu kallaði fram tilfinningu fyrir grafhýsi sem bæði tengdist áhrifum sem Pálína varð fyrir í Egyptalandi og þeirri staðreynd að hún þekkti ekki föður sinn og ætt hans en hann lést þegar hún var fimm ára.  Hinn hluti sýningarinnar samanstóð af öðru rými þar sem gömlum trékassa með orða-, málfræði- og tungumálabókum var komið fyrir. Hann vísaði annars vegar til þess að það eina sem Pálína erfði eftir föður sinn og afa voru tvær orðabækur – og hins vegar þess að hæfileikinn til að læra tungumál og áhuginn á málfræði var frá honum kominn. Seinna var innsetningin sett upp aftur árið 2012 undir nafninu „Faðirinn“. Sú útgáfa byggði fyrst og fremst á hugmyndunum tengdum hlutverki og stöðu föðurins í lífi fólks, hvernig lífið er með eða án hans sem ‚fyrirmyndar‘. 


Einkasýningin „Maður fram af manni“  var haldin 2012 í bókasafni Háskólans á Akureyri. Þar var móðurættin frá Víðikeri í Bárðardal viðfangsefnið. Sýningin samanstóð af 8 litríkum verkum sem voru máluð á tréplötur til að geta staðið í mannhæð upp við veggina sem ekki mátti negla í. Andlitin koma í röð hvert upp af öðru og oftast fjögur á hverri mynd. 

Sama ár var sýningin „Móðurást“ sem samanstóð af bókverki og seríu akrýlmynda á pappír. Í miðju sýningarrýminu var gamalt hnattlíkan á gólfinu á svörtu klæði. Salurinn var myrkvaður og gestirnir fengu vasaljós til að lýsa upp myndirnar og skoða þær. Titillinn er tvíþættur, annars vegar vísar hann til umönnunar afkvæma og hins vegar sömu kennda sem mannkynið ætti að hafa til ‚móður jarðar‘. Pálína skoðar hér formæður/-feður sína í móðurlegg og fjölskyldu móðurömmu sinnar aftur í áttunda lið með það í huga að minnast þessa fólks, undirstrika tengsl kynslóðanna og draga fram muninn á lífskjörum þeirra og okkar sem lifum í samfélagi ofgnóttar og allsnægta. Sem dæmi um stöðu nútíma konunnar andstætt horfnum kynslóðum formæðra bendir Pálína á að hún hafi um ævina átt fleiri kjóla og pils en allar þær formæður samanlagt sem myndgerðar eru á sýningunni. 


Fjórða andlita-sýning ársins 2012 var í gamla barnaskólanum að Skógum í Fnjóskadal. Titill sýningarinnar var „Skólaskylda“. Þar sýndi Pálína andlitsmyndir af börnum sem málaðar voru eftir gömlum ljósmyndum. Börnin á myndunum eiga það sameiginlegt að fyrr eða síðar hefst þeirra skólaganga og mun hún væntanlega verða sumum þeirra til farsældar og gleði en öðrum erfið. Sem fyrr er leitast við að vekja upp spurningar, að þessu sinni tengdar skólaskyldu,  menntun og þekkingaröflun en einnig fáfræði og skammsýni sem vel getur verið til staðar hjá vel upplýstum þjóðum. 


Svipir

Sýningin „Á ferð og flugi“, árið 2016, samanstóð af tveimur verkum u.þ.b. 4 m x 73 cm, máluð með akrýllitum. Annað sýndi fólk á ferð í almenningssamgöngum, á stöðugri ferð milli staða og iðulega á varðbergi. Á því er röð andlita fólks á ólíkum aldri og spurning hvort allir séu lifandi. Leitast er við að fanga tilfinningu fyrir bið, þrengslum og aðþrengdu rými. Hitt verkið fjallaði um flóttafólk, þjáningu, erfiðleika og jafnvel dauða.  Það sýnir konur sem eru huldar litum og efnum, aðeins glittir í augun og mótar fyrir vörum. Þær eru faldar og eiga helst að sjást sem minnst, hvort sem er heima hjá sér fyrir stríðsátökin eða í tjöldum flóttamannabúðanna. 

Pálína fylgdi þessari vinnu eftir ári síðar með sýningunni „Borgarbúar“. Þar voru sýnd tvenns konar verk, annars vegar 4 akrýlverk á striga, 160 x 60 cm á stærð, úr seríu tíu málverka frá dvöl í Berlín árið 2017. Á hverju málverki eru fimm andlit og hvert þau horfa skiptir miklu máli og gefur til kynna samband eða sambandsleysi persónanna sín á milli og við umhverfið. Hugmyndin vísar til ótta og ógna stórborgarlífsins þegar áföll dynja yfir, hryðjuverk eða stríð. Einnig var reynt að teikna upp hvernig fólk þjappar sér saman í hópa til finna skjól eða öryggi. Hinn hluti sýningarinnar eru margar litlar akrýlmyndir á pappír með einföldum andlitum og geislabaugi í kring. Geislabaugurinn tengist gömlum trúarlegum verkum og vangaveltum um líf og dauða, sorg og trega, og hvernig menn eru metnir af gjörðum sínum á hinstu stundu. 


Sýningin „Þjóð“, á Hrafnseyri við Arnarfjörð, var safn andlitsmynda sem sett var saman í tilefni af fullveldisafmæli Íslands árið 2018. Þar skoðar Pálína hin mörgu andlit eigin þjóðar sem hún hefur dregið upp á þeim áratugum sem hún hefur unnið með andlitsmyndir.


Áhrif og umhverfi

Ein nálgun listakonunnar í andlitsmyndum er að skoða í gegnum stjörnuspeki kosmísk áhrif á einstaklinginn. Þau verk byggja mjög á texta, en honum fylgir samt alltaf andlitsmynd. Í verkunum – sem segja má að séu einskonar innsetningar – notar hún stjörnukort samhliða persónulýsingum sem eru handskrifuð inn í verkin. Hér fellir Pálína saman þætti sem lúta að erfðum og því sem tengist stað og stund, stöðu fólks þegar það kemur ‚á jörðina‘. Stjörnuspeki og ættfræði eru leiðir til að skoða fólk sem einskonar heild og hluta af miklu flóknara kerfi. Þarna kemur líka inn málvísindaáhuginn, en listakonan hefur kerfisbundið kannað hin margslungnu tengsl tungumáls og myndlistar.

Stjörnuspekin var einnig notuð á sýningunni „Húsmæður og heimasætur“ sem var samsýning Pálínu og sagnfræðingsins Kristínar Þóru Kjartansdóttur, að gistiheimilinu Skeið í Svarfaðadal árið 2009. Kveikjan að sýningunni var sú að ömmur þeirra beggja bjuggu að Skeiði fyrir um hundrað árum en ekki þó samtíða. Í sýningunni er þessum formæðrum gerð skil en húsmóðir og heimasæta á bænum komu líka fyrir. Pálína vann stjörnukort fjögurra kvenna, mæðra og dætra í fortíð og nútíð og setti fram á myndrænan hátt. 


Útilistaverk Pálínu er annarskonar leið til að staðsetja andlit í umhverfi og skapa þeim samhengi. Árið 2009 tók hún þátt í samsýningu í Lystigarðinum á Akureyri á Akureyrarvöku og málaði á húsvegg þar myndverk sem kallaðist Blómálfar, og tengdi andlitin skrúðgarðinum og umhverfinu. Ári seinna skipulagði Pálína samsýningu og viðburð í samstarfi við Jóhann Thorarinsen garðyrkjufræðing og bar verkefnið titilinn „Uppskeruhátíð ræktunar og myndlistar“. Þar málaði Pálína fjögur andlit á vegg á litlum skúr við matjurtagarðana og kölluðust verkin Vindáttirnar fjórar. Verkefnið fór fram í gömlu garðyrkjustöðinni á Krókeyri í Innbæ Akureyrar. Verkefnið heppnaðist svo vel að listakonan fékk boð um að mæta fyrir Íslands hönd á menningarráðstefnuna NordMach í Helsinki og fjalla um samvinnu listar og atvinnulífs. Þetta verkefni var endurtekið og stækkað árið 2012 á 150 ára afmæli Akureyrarbæjar.  


Að leggja línur


Myndlist Pálínu er auðug af tjáningu og tilfinningum sem hún miðlar fyrst og fremst með litanotkun. Í andlitsmyndum teiknar hún upp hin mörgu andlit manneskjunnar og fangar hugmyndir um það hvernig einstaklingurinn er ævinlega séður í gegnum mörg lög menningarlegrar mótunar, ættar, stöðu, staðsetningar eða umhverfis, tilfinninga og ásetnings. Þannig skapar listakonan rými fyrir áhorfandann til að skoða sjálfan sig í myndunum, spegla tilfinningar og viðhorf til sjálfs sín og annarra í hinum ólíku andlitum. Jafnframt fjallar Pálína beinlínis um rými í mörgum verka sinna, sérstaklega þeirra sem eru frekar abstrakt. Þau kalla jafnframt fram óljósar hugmyndir um landslag og línur – leiðir sem farnar eru af fólki um krókaleiðir náttúrunnar jafnt sem stræti borga og bæja. Náttúran virðist á stöðugri hreyfingu í krafti öflugrar litanotkunar og áferðar sem skapa spennu og gefa til kynna flæði sem oft virðist á mörkum þess að haldast innan rammans. Á sama hátt flæða andlitin, stundum mörg saman, yfir stóra fleti málverkanna og á milli minni myndanna sem iðulega eru sýndar saman í hóp. Andlitsmyndainnsetningar í þröngum dimmum rýmum kalla á sterk viðbrögð og jafnvel sjónhverfingar þar sem svipirnir virðast svífa um í lausu lofti og krefja áhorfandann um að vera vel á verði.


Þessi svífandi andlit og hinar leitandi línur kalla fram svipaða tilfinningu og ímagistinn Ezra Pound lýsti í ljóði frá árinu 1913, „In a Station of the Metro“ : „The apparation of these faces in the crowd / Petals on a wet, black bough.“ Í þýðingu Þorsteins Gylfasonar frá árinu 1993 hljóðar það svo : „Á neðanjarðarstöð í París“ : „Andlit sjást á fólkinu í fjöldanum / blómknappar á blautri svartri grein.“


Ljóð Pounds lýsir andlitum sem fyrir ber í fjölmenni því sem myndast í samgönguæðum borga og dregur saman tvö helstu stef listar Pálínu, borgarlínur og náttúrlegt landslag og andlit, sem sum sjást í svip, önnur bera svip af hvort öðru vegna tengsla, frændsemi eða tilfinningalegra áhrifa. Hér birtist einnig vel sú sterka heildarhugsun sem liggur að baki list Pálínu, en hver sýning býr yfir hugmyndafræðilegri heild. Þegar sýningarnar eru dregnar saman má sjá í þeim landslag, svipi og línur, þær byggja hver á annarri og kallast á. Með því að líta yfir farinn veg má glöggt greina ferli í verkunum sem byggir á rannsóknum og þaulunninni vinnu með hugmyndir og fyrirbæri. Hluti af þessari vinnu felst í því að tjá samtímis persónulegan veruleika og það hvernig bæði manneskjan og umhverfi hennar er afsprengi flókinna erfða, sögu og samfélags. Með þessu móti leysir listakonan stöðugt upp hefðbundin mörk og skapar list sinni ferska farvegi.

Listumfjöllun: Text
bottom of page