ÁHRIFAVALDAR
Pálína Guðmundsdóttir
Helstu áhrifavaldar í myndlistinni hafa verið mismunandi eftir tímabilum og búsetu. Í Gautaborg kynntist ég norrænni myndlist með sína melankólíu bæði í andlitum og landslagi. Það var stutt að fara til Oslo og sjá Edvard Munch ítrekað. Expressíónismi í verkum hans frá Berlín heilluðu mest. Blýantsteiknaðrar sjálfsmyndir Käthe Kollwitz höfðu líka sterk áhrif á mig. Mér var tjáð af kennurum mínum í AKI í Hollandi að ég væri kolóristi sem fæstir í skólanum voru og mér var bent á ýmsa áhugaverða listamenn sem ég ætti að stúdera. Þýsku expressíónistarnir, m.a. Heckel og Kirchner ásamt Nolde voru í uppáhaldi, síðar amerísku abstrakt expressionistarnir Pollock, Newman og Rothko og vann ég lengi við málverk sem byggðu á litaflötum, lóðréttum og mismunandi efnisrannsóknum og áferðum. Síðar fór ég að stúdera impressíónistana, sérstaklega Monet. Augnablikið, birtan og litirnir heilluðu mig og næmi umhverfisins og náttúrunnar sem þeir tjáðu. Síðar dúkkaði portrettið upp og hollensku meistararnir, einkum Rembrandt, heilluðu. Marlene Dumas (sem kenndi mér í AKI mín síðastu ár þar) blés nýju lífi í portrettmyndagerð sem hafði þótt afleitt þema eða listform mín fyrstu ár í Hollandi. Þótt ekkert í minni list líkist verkum fyrrum kennara míns Marínu Abramovic þá hefur hið dulræna og djúpa í list hennar samt haft áhrif á mig. Eftir því sem list mín hefur þróast tengi ég meira við fornlist eins og ítölsku grafarmálverkin, þar andlitin snúa beint fram, á hlutlausan hátt. Heimsóknir mínar í grafhýsi í Egyptalandi og í Róm hafa líka skilið eftir sig spor, ekki síst í ættfræðirannsóknar myndverkum mínum.